3, 2,1 LIFETRACK
Það var mikil eftirvænting þegar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, setti af stað LifeTrack heilsubyltinguna í Cava salnum á dögunum. Grunnur byltingarinnar er LifeTrack heilsuappið – íslensk nýsköpunarlausn sem stuðlar að bættri andlegri og líkamlegri heilsu.
Fólkið á bakvið LifeTrack eru heilsufrumkvöðlarnir Ingi Torfi Sverrisson og Linda Rakel Jónsdóttir, stofnendur ITS macros, sem hafa hjálpað þúsundum að bæta mataræði, hreyfingu og hugarfar. Appið, sem var unnið í samstarfi við næringa- og íþróttafræðinga, er sérsniðið að íslenskum notendum og inniheldur yfir 9.000 íslenskar matvörur með næringarupplýsingum og strikamerkjum.
"Með mikilli gleði setti ég af stað LifeTrack heilsubyltinguna. Appið er nýsköpunarlausn fyrir íslenskan markað sem mun hafa afar jákvæð áhrif á heilsu fólks og hjálpa til við að draga úr stórum lýðheilsuvanda. Ég er stolt af þessum heilsufrumkvöðlum sem brenna fyrir bættri heilsu okkar hinna," segir Áslaug Arna.
LifeTrack appið fór í loftið fyrir nokkrum dögum og hefur þegar fengið frábærar viðtökur og áskriftir seldar áður en appið var kynnt opinberlega. Auk næringardagbókar býður appið upp á hugleiðslur, kvöldsögur, jóga- og heimaæfingar, hlaupaprógrömm og fróðleiksmola um svefn.
Appið, sem var unnið í samstarfi við næringa- og íþróttafræðinga, er aðgengilegt í Apple Store og Google Play.